Ólympíufarar á Akureyri

Ásdís Hjálmsdóttir hefur þegar kastað yfir 60 metra á þessu …
Ásdís Hjálmsdóttir hefur þegar kastað yfir 60 metra á þessu ári og stefnir á úrslitin í Ríó. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þrír ólympíufarar mæta til leiks þegar meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fer fram á Þórsvellinum á Akureyri í dag. Þar er um að ræða spjótkastarana Ásdísi Hjálmsdóttur og Helga Sveinsson og kringlukastarann Guðna Val Guðnason.

Ásdís og Guðni eru á leið á Ólympíuleikana í Ríó innan skamms og Helgi verður á ferðinni í Ríó á Ólympíumóti fatlaðra í september. Ásdís og Guðni vilja án efa sjá góða kastseríu hjá sér áður en þau halda utan og stíga á stóra sviðið.

Barátta Ara og Kolbeins

Nýbakaður Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi, Ari Bragi Kárason, er skráður til leiks og gerir ef til vill atlögu að meti sínu frá því í síðustu viku. Annar spretthlaupari, Kolbeinn Höður Gunnarsson, verður á heimaslóðum á Akureyri en hann skipti í fyrra yfir í FH eftir að hafa keppt áður fyrir UFA. Kolbeinn mun eflaust veita Ara harða keppni þótt Kolbeinn sé farinn að sérhæfa sig meira í lengri vegalengdum eins og 200 og 400 metrum.

Guðni Valur Guðnason náði góðum árangri á EM og ætlar …
Guðni Valur Guðnason náði góðum árangri á EM og ætlar sér að komast langt í Ríó. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Helgi Sveinsson fær verðuga keppni því Norðmaðurinn Runar Steinstad mætir til leiks í spjótkastskeppnina. Steinstad er enginn nýgræðingur í faginu og státar af bronsverðlaunum frá Ólympíumótinu í London. Þar hafði hann betur gegn Helga en allra síðustu ár hefur Helgi sigið fram úr honum enda heimsmethafi í sínum fötlunarflokki. Steinstad er reyndur keppnismaður og er einnig að undirbúa sig fyrir Ólympíumótið í Ríó.

Aníta og Hafdís fjarverandi

Tvær kempur verða ekki á meðal keppenda að þessu sinni en þar er um að ræða Íslandsmeistarana Anítu Hinriksdóttur og Hafdísi Sigurðardóttur. Aníta er í æfingabúðum erlendis sem er liður í undirbúningi hennar fyrir leikana í Ríó. Hafdís glímir hins vegar við nárameiðsli sem hafa strítt henni í nánast allt sumar. Hefur hún ekki getað æft að ráði síðan í byrjun júní þótt henni tækist að harka af sér og keppa á EM. Skömmu eftir EM bætti hún eigið Íslandsmet í langstökkinu en þá tóku nárameiðslin sig upp og útlit er fyrir að tímabilinu sé jafnvel lokið hjá Hafdísi en hún var aðeins 8 cm frá Ólympíulágmarkinu.

„Ég er mjög slæm og ekki keppnishæf. Því miður er ekkert sem ég get gert. Ég ætlaði mér að sjálfsögðu að ná í Íslandsmeistaratitil á heimavelli,“ sagði Hafdís þegar Morgunblaðið heyrði í henni hljóðið í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert