Arna og Kolbeinn unnu 200 metrana

Arna Stefanía Guðmundsdóttir á fullri ferð.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir á fullri ferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arna Stefanía Guðmundsdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson urðu í dag Íslandsmeistarar í 200 m hlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Þórsvellinum á Akureyri.

Arna fékk sín fjórðu gullverðlaun á mótinu en hún sigraði í gær í 400 m hlaupi og 100 m grindahlaupi, ásamt því að vera í sigursveit FH í 4x100 m boðhlaupi.

Hún náði sínum besta árangri í 200 m hlaupinu í dag með því að hlaupa á 24,21 sekúndu. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir, sem vann 100 metrana í gær, varð önnur á 24,44 sekúndum og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR náði sínum besta árangri þegar hún varð þriðja á 24,72 sekúndum.

Kolbeinn Höður, sem vann einnig 100 m hlaup karla í gær og var í sigursveit FH í 4x100 m boðhlaupi karla, fékk sín þriðju gullverðlaun þegar hann vann 200 metrana á 21,48 sekúndum. Kormákur Ari Hafliðason úr FH varð annar á 22,58 og Guðmundur Ágúst Thoroddsen úr Aftureldingu þriðji á 22,59 sekúndum.

Þorsteinn Ingvarsson úr ÍR vann sína aðra grein á mótinu þegar hann sigraði í þrístökki karla í dag með 13,54 metra stökki. Hann vann langstökkið í gær.

Kolbeinn Höður Gunnarsson er kominn með þrenn gullverðlaun.
Kolbeinn Höður Gunnarsson er kominn með þrenn gullverðlaun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert