Arna fékk fimm gull á Meistaramóti Íslands

Arna Stefanía Guðmundsdóttir, brosmild á Akureyri um helgina.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir, brosmild á Akureyri um helgina. Ljósmynd/Páll Jóhannesson

FH-ingurinn Arna Stefanía Guðmundsdóttir var í hörkuformi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum á Þórsvellinum á Akureyri um helgina. Arna setti Íslandsmet 22 ára og yngri í 400 metra hlaupi á laugardaginn og var það besta afrek dagsins. Hún fékk alls fimm gullverðlaun á mótinu og var sigursælasti keppandinn.

Fyrra metið í 400 m hlaupinu átti Silja Úlfarsdóttir sem hljóp á 53,97 sekúndum á háskólamóti í Bandaríkjunum fyrir fjórtán árum en Silja var á staðnum á laugardaginn og gat því óskað Örnu til hamingju. Arna hljóp vegalengdina á 53,91 sekúndu en það er þriðji besti árangur Íslendings frá upphafi. Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur í fullorðinsflokki er 52,83 sekúndur og Silja hljóp hraðast á 53,70 sekúndum. Arna sigraði einnig í 100 m grindahlaupi kvenna á 13,86 sekúndum sem er hennar besti árangur í greininni.

„Ég er mjög sátt. Byrjaði daginn á því að bæta mig mjög mikið í 100 metra grind sem ég hef ekki lagt áherslu á í sumar. Náði einnig mínum besta árangri í 400 metrunum sem er mjög gott. Að bæta mig í tveimur greinum í rigningu og frekar köldu veðri sýnir að ég er í góðu formi,“ sagði Arna, en hún segir þennan árangur ekki beinlínis hafa verið í kortunum.

Sjá grein­ina í heild sinni í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert