Hreinsaður af ásökunum

Peyton Manning er hættur í NFL-deildinni og er farinn yfir …
Peyton Manning er hættur í NFL-deildinni og er farinn yfir í golfið. AFP

Peyton Manning, fyrrverandi leikstjórnandi Denver Broncos og Indiana Colts í NFL-deildinni í Bandaríkjunum, var í dag hreinsaður af ásökunum um að hafa notað HGH (Human Growth Hormone) árið 2011. Það er greint frá þessu á heimasíðu NFL-deildarinnar.

Manning vann Ofurskálina tvisvar á ferlinum auk þess sem hann var valinn besti leikmaður deildarinnar fimm sinnum en hann lagði skóna á hilluna í mars á þessu ári eftir átján ára feril en hann vann síðari Ofurskálina í febrúar með Broncos.

Al Jazeera America greindi frá því í desember að Manning gæti hugsanlega hafa notað HGH (Human Growth Hormones) árið 2011 til þess að flýta fyrir bata af meiðslum en það ár var hann meira og minna frá allt tímabilið. HGH er bannað í flest öllum íþróttum í Bandaríkjunum.

Fjölmiðillinn birti samtal Charles Sly, nemanda á rannsóknarstofu í Indiana, en þar gefur hann í skyn að Ashley Manning, eiginkona Peytons, hafi verið að taka við sendingum af HGH. Það átti að hafa gerst árið 2011 en Peyton neitaði ásökunum.

Ashley og Peyton veittu NFL-deildinni alla þá aðstoð sem hún þurfti til þessa að rannsaka málið en eftir sjö mánaða rannsókn hefur Peyton loks verið hreinsaður af ásökunum um að hafa notað HGH.

Fleiri leikmenn NFL-deildarinnar eru ásakaðir um að hafa notað HGH en þar má nefna Julius Peppers og Clay Matthews auk þess sem James Harrison hjá Pittsburgh Steelers verður yfirheyrður eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert