Sterkt sundfólk í banni á ÓL.

Julia Efimova hefur unnið til fjölda verðlauna.
Julia Efimova hefur unnið til fjölda verðlauna. EPA

Alþjóðasundsambandið, FINA, hefur kveðið upp þann úrskurð að sjö keppendur frá Rússlandi verði ekki með á Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó 5. ágúst. Þessi ákvörðun er tekin vegna lyfjamisnotkunar Rússa.

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, til­kynnti í gær að ákveðið hefði verið að fela heims­sam­bönd­un­um í hverri íþrótta­grein fyr­ir sig að taka ákvörðun um hvort rúss­nesk­ir kepp­end­ur í þeirra grein fengju heim­ild til að keppa í Ríó.

Þeir sjö keppendur sem ekki fá keppnisleyfi í Ríó eru margir hverjir í fremstu röð. Nægir þar að nefna Juliu Efimovu sem vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í London 2012 en Efimova er einnig margfaldur heims- og Evrópumeistari í 50, 100 og 200 metra bringusundi.

Auk Efimovu verða Mikhail Dovgalyuk, Natalia Lovtcova, Anastasia Krapivina, Nikita Lobintsev, Vladimir Morozov og Daria Ustinova fjarri góðu gamni í Ríó.

Þessar fréttir ættu að gefa íslensku sundfólki aukna möguleika í Ríó, ekki síst Hrafnhildi Lúthersdóttur sem vann til þrennra verðlauna í bringusundi á Evrópumótinu í London á þessu ári.

Hrafnhildur þarf a.m.k. ekki að hafa áhyggjur af hinni geysisterku Juliu Efimovu á leikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert