Enn þynnist ÓL-hópur Rússa

Alexander Diachenko (t.v.) varð Ólympíumeistari í London 2012.
Alexander Diachenko (t.v.) varð Ólympíumeistari í London 2012. AFP

Átta Rússar bættust í dag á lista íþróttafólks sem ekki fær að keppa á Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó 5. ágúst. Ástæðuna má rekja til skipulagðrar lyfjamisnotkunar Rússa í fjölmörgum íþróttagreinum.

Þar með hefur samtals 18 rússneskum íþróttamönnum verið neitað um keppnisrétt á Ólympíuleikunum. Alþjóðaólympíunefndin sendi frá sér tilkynningu nýverið um að heimssamband hverrar íþróttagreinar tæki endanlega ákvörðun um hvort rússneskt íþróttafólk fengi keppnisrétt eða ekki.

Íþróttafólkið sem um ræðir keppir í kanóróðri, fimmtarþraut og siglingum.

Meðal þeirra sem ekki fá að keppa í Ríó eru Alexander Diachenko og Alexei Korovashkov sem báðir unnu til verðlauna í kanóróðri á Ólympíuleikunum í London 2012. Þá er Korovashkov fimmfaldur heimsmeistari í greininni.

Alþjóðajúdósambandið og alþjóðaskotsambandið hafa hins vegar sent frá sér yfirlýsingar, þar sem fram kemur að Rússar megi keppa á Ólympíuleikunum í þessum greinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert