Rugby-landsliðið lenti í 4. sæti

Íslenska landsliðið í rugby stillir sér upp í Ungverjalandi.
Íslenska landsliðið í rugby stillir sér upp í Ungverjalandi. Ljósmynd/ Aðsend

Íslenska landsliðið í rugby hafnaði í fjórða sæti í 2. deild Evrópumótsins í ólympísku rugby sem fram fór í bænum Esztomgen í Ungverjalandi um helgina.

Ólympískt rugby er sjö manna útgáfa af 15 manna rugby (rugby union) og verður í fyrsta skipti keppt í því á Ólympíuleikunum í Ríó dagana 6. – 11. ágúst. Hver leikur er 14 mínútur, en spilaðir eru tveir sjö mínútna hálfleikir og því er leikurinn hraður og skemmtilegur áhorfs.

Ísland keppti í A-riðli ásamt Austurríki, Liechtenstein og San Marínó. Í B-riðli voru Malta, Eistland, Svartfjallaland og Hvíta-Rússland. Deildina vann Malta eftir sigur gegn Svartfjallalandi.

Íslenska landsliðið hóf mótið með sigri á San Marínó með 19 stigum gegn 7 en tapaði svo naumlega fyrir Austurríki 12 – 5, en með einu snertimarki (e. try) og sparkmarki (e. conversion) fást 7 stig.

Landsliðið barðist af krafti.
Landsliðið barðist af krafti. Ljósmynd/ Aðsend

Leikurinn gegn Liechtenstein var því lykillinn að því að komast í undanúslit á seinni degi mótsins en Ísland vann hann með 15 stigum gegn 14.  Leikurinn var vægast sagt spennandi og var jafn í hálfleik. Í seinni hálfleik náði lið Liechtenstein tveimur snertimörkum og tveimur sparkmörkum sem gaf þeim 14 stig en Íslendingarnir náðu þremur snertimörkum en engu sparkmarki sem færði þeim nauman sigur með 15 stigum.

Ísland mætti Möltu á seinni degi mótsins í fjögurra liða úrslitum og með sigri hefði Ísland náð að vinna sig upp um deild á Evrópumótinu. Maltverjar voru hins vegar of sterkir fyrir Íslendingana sem töpuðu með engum stigum gegn 19.

Ísland keppti því um þriðja sætið á móti Austurríki sem var álitið sterkasta lið mótsins. Það fór svo að Austurríki hafði betur með 26 stigum gegn 7 stigum Íslendinga. Niðurstaða helgarinnar fyrir Ísland er því 4. sæti sem verður að teljast góður árangur.

Í landsliði Íslands eru Birnir Orri Pétursson, Jón Jökull Lischetzki, Brynjólfur Gauti Jónsson, Orri Viðarsson, Tómas Gunnar Tómasson, Fergus Mason (fyrirliði og þjálfari), Christian Helgi Beaussier, Stefán Björnsson, Thomas Bogi Sierbeaus, Philip Jones, Jakob Wayne Víkingur Robertson, Heiðar Heiðarsson og Þráinn Viggósson.

Hægt er að sjá leikina hér.

Ljósmynd/ aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert