Rússneskir svindlarar í Ríó

Höfuðstöðvar rússnesku ólympíunefndarinnar í Moskvu.
Höfuðstöðvar rússnesku ólympíunefndarinnar í Moskvu. AFP

Á meðal þátttakenda á Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó í Brasilíu 5. ágúst næstkomandi verða rússneskir íþróttamenn sem hafa notað ólögleg lyf til þess að bæta frammistöðu einhvern tímann á ferli sínum. Þetta segja hjónin Vitali og Julia Stepanov sem hafa barist gegn ólöglegri lyfjamisnotkun rússnesks íþróttafólks á fjölmörgum vígstöðvum. 

Alþjóðaólympíunefndin valdi að fara þá leið að setja það í hendur sérsambanda að ákvarða hvort rússneskt íþróttafólk yrði bannað frá Ólympíuleikunum í Ríó. Nú þegar hafa 37 Rússar verið settir í bann frá leikunum, en Stepanov-hjónin telja að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir að rússneskur svindlari taki þátt. 

Stepanov-hjónin þurftu að flýja Rússland eftir að framburður þeirra í þýskri heimildarmynd árið 2014 hratt af stað viðamikilli rannsókn alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA) sem leiddi í ljós umfangsmikla og þaulskipulagða lyfjamisnotkun rússnesks íþróttafólks. 

„Því miður voru viðbrögðin við uppljóstrunum okkar og aðgerðum okkar til þess að koma í veg fyrir lyfjamisnotkun í framtíðinni síður en svo jákvæð. Almenningur í Rússlandi og sér í lagi rússneskt íþróttafólk leggur fæð á okkur og hugsar okkur þegjandi þörfina,“ sagði Vitali í samtali við BBC.

„Þá bar úrskurður alþjóðaólympíunefndarinnar vott um linkind. Vegna þess að alþjóðaólympíunefndin tók málið ekki föstum tökum mun rússneskt íþróttafólk sem hefur tekið þátt í kerfisbundinni lyfjamisnotkun með aðstoð rússneskra yfirvalda ekki hljóta neina refsingu og fá að vera með á Ólympíuleikunum í Ríó,“ sagði Vitali enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert