Tennisstjarna ekki með í Ríó

Roger Federer verður ekki með á ólympíuleikunum í Ríó.
Roger Federer verður ekki með á ólympíuleikunum í Ríó. AFP

Svissneski tennisleikarinn Roger Federer verður ekki með á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu, en auk þess getur hann ekki tekið þátt í þeim mótum sem eftir eru á árinu vegna hnémeiðsla. Federer, sem hefur unnið 17 risamótstitla á ferlinum, þarf að fara í langa endurhæfingu eftir að hafa verið skorinn upp vegna meiðsla sinna í febrúar á þessu ári. 

„Það eru gríðarleg vonbrigði að geta ekki verið fulltrúi svissnesku þjóðarinnar í Ríó og erfiður biti að kyngja að vera ekki meira með á tímabilinu. Ég hyggst leggja mikinn kraft í endurhæfingu mína og er staðráðinn í því að mæta sterkur til leiks árið 2017,“ sagði Federer í yfirlýsingu á facebooksíðu sinni. 

Federer hefur einu sinni unnið gullverðlaun á Ólympíuleikum, en það gerði hann í tvíliðaleik á leikunum í Peking árið 2008. Federer hefur hins vegar aldrei borið sigur úr býtum í einliðaleik á Ólympíuleikum, en hann laut í lægra haldi fyrir Andy Murray í úrslitaleiknum í London árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert