Stefnir aftur í júdóið eftir kraftaverk

Stephanie Inglis með silfurverðlaun sín á Samveldisleikunum.
Stephanie Inglis með silfurverðlaun sín á Samveldisleikunum. Ljósmynd/Twitter-síða Stephanie Inglis

Fyrir 79 dögum lenti skoska júdókonan Stephanie Inglis í alvarlegu mótorhjólaslysi í Víetnam, en henni voru gefnar 1% líkur á því að lifa slysið af. Bati Inglis hefur hins vegar verið kraftaverki líkastur og nú stefnir hún á endurkomu í júdóið. 

Inglis, sem vann silfurverðlaun á Samveldisleikunum og hefur unnið til fjölda verðlauna á alþjóðlegum mótum, hlaut verulega alvarlega áverka í slysinu, en hún brákaðist á hálsi á tveimur stöðum, hún fékk alvarlega höfuðáverka og sýkingar á borð við lungnabólgu, blóðtappa og barkabólgu.

Þá gat Inglis ekki tjáð sig eftir slysið, en endurhæfing hennar hefur gengið vonum framar og hún tjáði sig um slysið í samtali við BBC í dag þar sem hún lýsir framtíðaráformum sínum. Inglis sneri aftur heim í dag og stefnir á komast aftur í sína gömlu rútínu sem fyrst. 

„Mér hefur verið sagt að setja stefnuna á að lifa venjulegu lífi og fyrir mér er það að komast aftur á gólfið og fara að æfa júdó á nýjan leik. Ég hef æft júdó síðan ég var fjögurra ára gömul og þekki ekkert annað en að lifa og hrærast í júdóheiminum,“ sagði Inglis í samtali við BBC. 

„Fram undan er löng og ströng endurhæfing og æfingar hjá sjúkraþjálfara. Markmiðið er að komast í mitt fyrra form og geta keppt í júdó í framtíðinni. Ég mun fyrst um sinn aðstoða föður minn í júdófélaginu hans og svo í framhaldinu endurheimta þol hægt og rólega,“ sagði Inglis enn fremur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert