Rússneskt lyftingafólk bannað í Ríó

Þessir rússnesku stuðningsmenn geta ekki hvatt rússneskt kraftlyftingafólk til dáða …
Þessir rússnesku stuðningsmenn geta ekki hvatt rússneskt kraftlyftingafólk til dáða á Ólympíuleikunum í Rio. AFP

Rússnesku lyftingafólki hefur verið bannað að taka þátt í Ólympíuleikunum sem hefjast í Ríó í Brasilíu á föstudaginn í næstu viku vegna ásakana um lyfjamisnotkun. Það er BBC sem greinir frá þessu. 

Alþjóðaólympíunefndin tók það til skoðunar eftir að svokölluð McLaren-skýrsla var opinberuð þar sem kom fram að rússneskt íþróttafólk hefði skipulagt og kerfisbundið notað ólögleg lyf með vitneskju og aðstoð rússneskra yfirvalda.

Úrskurður alþjóðaólympíunefndarinnar fól í sér að hvert sérsamband fyrir sig ætti að ákvarða hvort rússnesku íþróttafólki yrði heimilað að taka þátt í Ólympíuleikunum eður ei. Tveir rússneskir lyftingamenn höfðu áður verið úrskurðaðir í bann vegna lyfjamisnotkunar sinnar og nöfn þeirra komu fram í McLaren-skýrslunni. 

Nú hefur alþjóðalyftingasambandið ákveðið að rússnesku lyftingafólki verði ekki heimilt að taka þátt í Ólympíuleikunum í Ríó. Rússneska íþróttamálaráðuneytið segir að eftir þessa ákvörðun hafi 272 af 387 rússneskum íþróttamönnum verið hreinsaðir af ásökunum um lyfjamisnotkun og geti þar af leiðandi tekið þátt í Ólympíuleikunum í Ríó.

Alþjóðalyfjaeftirlitið lagði það til, í kjölfar þess að skýrslan var opinberuð, að öllu rússnesku íþróttafólki yrði bannað að keppa á Ólympíuleikunum. Alþjóðaólympíunefndin gekk ekki svo langt eins og áður segir, en alþjóðafrjálsíþróttasambandið og alþjóðalyftingasambandið hafa tekið þá ákvörðun að útiloka rússneskt íþróttafólk, óháð því hvort það hefur fallið á lyfjaprófi eður eir.  

Alþjóðasambönd um hnefaleika, golf, fimleika og taekvondo eiga síðan eftir að taka ákvörðun um hvort rússnesku íþróttafólki innan þeirra sérsambanda verði heimiluð þátttaka á Ólympíuleikunum í Ríó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert