„Þetta er í heimsklassa“

Arna Stefanía Guðmundsdóttir.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég trúði þessu varla fyrst, beið lengi eftir að það kæmi nýr tími og var þvílíkt glöð þegar kom í ljós að þetta var endanlegi tíminn. Hann myndi fleyta mér langt á heimsvísu, ég held að ég sé annaðhvort númer eitt eða tvö á mínum aldri í Evrópu. Það eiga eftir að koma fleiri tímar inn eftir helgina en ég er frekar ofarlega eins og stendur og það boðar gott fyrir næsta sumar,“ sagði frjálsíþróttakonan Arna Stefanía Guðmundsdóttir í samtali við Morgunblaðið eftir að hafa orðið Norðurlandameistari í 400 metra grindahlaupi í Norðurlanda-Baltic meistaramótinu sem fór fram í Espoo í Finnlandi um helgina.

Arna bætti besta tímann sinn um rúma sekúndu þegar hún hljóp á 56,08 sekúndum. Tíminn sem Arna hljóp á er svo góður að hún kæmist inn á heimsmeistaramótið sem haldið verður á næsta ári miðað við lágmarksskilyrði á síðasta móti í fyrra. Arna er bjartsýn á að tryggja sér þátttöku á heimsmeistaramótinu með þessu áframhaldi.

„Ég held að ég sé nokkuð örugg því að mér finnst líklegt að lágmarkið verði svipað og síðast þannig að möguleikarnir að komast þangað eru mjög góðir. Það væri gaman að lækka tímann enn meira en maður nær ekki alltaf svona stórri bætingu, maður er meira að detta niður um hálfa sekúndu eða einhver sekúndubrot.“

Nálgast Íslandsmetið

Hlaup Örnu í Finnlandi kemur henni í annað sætið á afrekslista íslenskra kvenna í 400 m grindahlaupi frá upphafi. Íslandsmetið eignaðist Guðrún Arnardóttir árið 2000 þegar hún hljóp vegalengdina á 54,37 sekúndum. Arna stefnir auðvitað að því að slá metið.

Nánar er rætt við Örnu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert