HK sendir tvö lið í NEVZA-mótið

Íslandsmeistarar HK í blaki karla taka þátt í Norðurlandakeppni félagsliða …
Íslandsmeistarar HK í blaki karla taka þátt í Norðurlandakeppni félagsliða í vetur eins og kvennalið félagsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

HK hefur skráð bæði karla- og kvennalið sín til þátttöku í Norðurlandakeppni félagsliða í blaki eða NEVZA sem fram fer í byrjun vetrar. 

Karlalið HK, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, tók þátt í fyrsta skipta á síðasta ári og fór þá til Tromsø í Noregi. Liðið lék fjóra leiki, tapaði öllum, en kom heim með reynslu í farteskinu.

Kvennalið HK tók þátt í þessari keppni í fyrsta skipti árið 2010 en þá var mótið haldið hér á landi í Digranesi í umsjón blakdeildar HK.

Jafnframt því að skrá bæði liðin til keppni sótti HK einnig um að halda undankeppnina en keppnisstaður hefur ekki enn verið ákveðinn af NEVZA.

Kvennalið HK mun mæta til keppni 11.-13. nóvember á þessu ári og karlaliðið keppir viku síðar eða 18.-20. nóvember.

Þátttökurétt á NEVZA hafa lið frá Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og þau lið sem vinna til titla í sínu heimalandi eða fjögur lið frá hverju landi samkvæmt ákvörðun blaksambands í hverju landi.

Norðurlandakeppni félagsliða í blaki (NEVZA) er sameiginlegt verkefni blaksambanda á Norðurlöndum sem hafa það að markmiði að efla blakíþróttina á sínu svæði og efna til keppni á hæsta getustigi fyrir liðin og mun sigurvegari hvers árs öðlast þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða í blaki (CEV cup) á næsta keppnisári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert