Fín uppskera yngri blaklandsliðanna

Íslenska U17 ára landslið kvenna.
Íslenska U17 ára landslið kvenna. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Íslensku U17 ára landslið Íslands í blaki luku í gær keppni á Nevza-mótinu sem fram fór í Danmörku. Stúlknaliðið hafnaði í fjórða sæti og drengjaliðið í því fimmta.

Á miðvikudag spiluðu liðin tvo leiki hvort. Stelpurnar mættu þá fyrst Englendingum í hörkuleik þar sem skiptust á skin og skúrir. Leikurinn endaði loks með 3:2-sigri íslenska liðsins (7:25. 16:25, 25:21, 25:20, 15:5). Seinni leikurinn var gegn Norðmönnum þar sem úr varð 3:0 norskur sigur (25:18, 25:19, 25:11).

Fyrri leikur strákanna á miðvikudag var gegn Englendingum sem fór 3:0 fyrir þeim ensku (25:20, 25:15 og 25:19). Seinni leikinn unnu íslensku strákarnir hins vegar gegn Færeyjum, 3:0 (25:15, 25:23, 25:22). Í gær spiluðu svo liðin sinn hvorn leikinn.

Stúlkurnar mættu Dönum sem reyndust sterkari og unnu 3:0 (25:7, 25:20, 25:20). Drengirnir kláruðu svo mótið gegn Norðmönnum og voru það þeir norsku sem fóru með 3:1 sigur af hólmi eftir hörkuleik (23:25. 25:21, 25:21, 21:25). Stúlkurnar enduðu í fjórða sæti sem áður sagði og drengirnir í því fimmta.

Það er mikið að gerast hjá landsliðunum okkar þessa daga, því á meðan U17 liðin búa sig til heimfarar, reynslunni ríkari eftir flott mót, búa U18 og U19 landsliðin sig til brottfarar. Bæði U19 landsliðin munu keppa á Nevza-mótinu sem fram fer í Kettering á Englandi 27.-31. október. Á sama tíma fer U18 lið kvenna til Falköping í Svíþjóð þar sem það mun taka þátt í EM. Það verður í fyrsta skipti sem Ísland sendir unglingalandslið í slíka keppni.  

Íslenska U17 ára landslið karla.
Íslenska U17 ára landslið karla. Ljósmynd/Blaksamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert