Í 10. bekk með 200 kíló

Sóley Margrét Jónsdóttir með 200 kíló á stönginni.
Sóley Margrét Jónsdóttir með 200 kíló á stönginni. Ljósmynd/Skjáskot

Hin 15 ára gamla Sóley Margrét Jónsdóttir afrekaði nokkuð í gærkvöld sem sárafáar íslenskar konur hafa afrekað.

Vefmiðillinn kaffid.is greinir frá því að Sóley Margrét, sem er í Kraftlyftingafélagi Akureyrar, hafi lyft 200 kílóum í hnébeygju. Í fréttinni segir reyndar að Sóley Margrét hafi lyft án hjálpartækja, sem sagt í klassískum kraftlyftingum, en sjá má að hún er þó með vafninga um hnéin.

Sóley Margrét er engu að síður samkvæmt þessu ein örfárra íslenskra kvenna sem lyft hafa 200 kílóum í hnébeygju, en Íslandsmetið í opnum flokki er 215 kíló. Árangurinn er ekki síður athyglisverður í ljósi þess hve ung hún er, eða enn í 10. bekk grunnskóla.

Forvitnilegt verður að fylgjast með framgöngu Sóleyjar Láru á bikarmótinu í kraftlyftingum um aðra helgi.

Uppfært: Upphaflega var sagt að Sóley Margrét hefði lyft án hjálpartækja, og að hún væri þar með fyrst íslenskra kvenna til að lyfta 200 kílóum í klassískum kraftlyftingum. Beðist er velvirðingar á mistökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert