„Ég setti markið hátt eins og ég geri alltaf“

Andri Nikolaysson Mateev, til vinstri.
Andri Nikolaysson Mateev, til vinstri. Ljósmynd/Skylmingasambandið

Andri Nikolaysson Mateev náði þeim athyglisverða árangri á dögunum að verða Norðurlandameistari í tveimur aldursflokkum.

Andri er aðeins 16 ára gamall en varð Norðurlanda, meistari bæði í U-17 ára og U-20 ára aldursflokkum á Norðurlandamótinu í Hróarskeldu í Danmörku.

Skylmingahreyfingin dafnar vel hérlendis eins og undanfarin ár og 23 íslenskir keppendur komu heim með 11 gullverðlaun, fjögur silfur og tíu brons.

Andri sagðist hafa verið með háleit markmið fyrir mótið. „Ég setti markið hátt eins og ég geri alltaf. Þegar maður var mættur á staðinn var stuðningurinn frábær og allt gekk upp enda íslenski hópurinn um þrjátíu manns ef allir eru taldir með,“ sagði Andri þegar Morgunblaðið spurði hann út í árangurinn.

Andri er enginn nýgræðingur í íþróttinni og hefur æft hana alla sína grunnskólagöngu. Hann æfir sex sinnum í viku og hefur meðal annars getað notið leiðsagnar föður síns, Nikolay Ivanov Mateev, sem var framarlega á heimsvísu á sínum tíma.

Nikolay fluttist til Íslands frá Búlgaríu fyrir mörgum árum og hefur lyft Grettistaki í íþróttinni hérlendis. „Ég hef verið á séræfingum með pabba en annars æfi ég hjá landsliðsþjálfaranum, Ingibjörgu Laufeyju Guðlaugsdóttur. Áður var ég einnig hjá Sævari Lúðvíkssyni en hann er nú farinn til Hollands í nám.“

Sjá allt viðtalið við Andra í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert