Arnar Davíð í 16 manna úrslit á EM

Arnar Davíð Jónsson.
Arnar Davíð Jónsson. Ljósmynd/Keilusamband Íslands

Arnar Davíð Jónsson lék í dag seinni 8 leikina í forkeppni EM í keilu sem fram fer í Olomouc í Tékklandi. Arnar spilaði mjög vel og tryggði sig inn í 16 manna úrslitin. 

Arnar, sem spilaði á 1801 í gær bætti um betur í dag og spilaði nú á 1.882 eða 3.683 samtals. Þetta skilaði honum 6. sæti inn í 16 manna úrslit. Arnar byrjaði daginn frábærlega, spilaði 268, 268 og 245 í fyrstu þremur leikjunum. Heldur dalaði spilamennskan í næstu þremur leikjum en þeir voru 213, 192 og 205. Arnar fann línuna aftur í síðustu tveimur leikjunum sem voru 237 og 254. Frábær spilamennska og er hann með 230,2 í meðaltal.

Arnar á þó enn ýmislegt inni og hann er staðráðinn í að sýna það. Á morgun kl. 11.00 hefst keppni í 16 manna úrslitum og eru leiknir 8 leikir. Eftir það verður skorið niður í 8 keppendur sem halda áfram í undanúrslit.

Það er heimamaðurinn Jaroslav Lorenc sem er efstur með 242,9 í meðaltal, næstu kemur James Gruffman frá Svíþjóð með 241,9 og þriðji er Valentyn Kucherencko frá Úkraínu með 234,2. Arnar Davíð er 64 stigum frá þriðja sætinu.

Í dag voru spilaðir tveir 300 stiga leikir sem er það hæsta sem hægt er að ná í einum leik.  Fyrst spilaði Glenn Robson frá Wales 300 leik og stuttu síðar var það Rúmeninn Catalin Gheorghe sem lék fullkominn leik.  Það skemmtilega við þetta er að þeir gerðu þetta á sama brautarpari í keilusalnum með aðeins nokkra mínútna millibili.

Sjá frétt mbl.is: Hafdís hefur lokið keppni á EM

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert