Stelpurnar unnu frækilegan sigur á Englandi

U19 lið kvenna 2016
U19 lið kvenna 2016 Ljósmynd/Blaksamband Íslands

U19 ára landslið Íslands í blaki hóf sína keppni í dag í NEVZA-móti U19 ára landsliða. Kvennaliðið vann England á meðan karlaliðið tapaði fyrir Noregi. 

Mótið er í Kettering á Englandi og er fyrsti keppnisdagur langt kominn. Íslensku liðin spiluðu eftir hádegi í dag og eiga svo aftur leik í kvöld. Karlaliðið beið lægri hlut gegn Noregi í sínum leik 3:0 en þriðja og síðasta hrinan var einna best hjá íslenska liðinu. Hrinurnar enduðu 25:14, 25:21 og 26:24 fyrir Noregi. Theódór Óskar Þorvaldsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 13 stig.

Kvennalandsliðið byrjaði sinn leik ágætlega. England stal þó hrinunni í lokin 25:21 og vann svo næstu 25;14. Íslenska liðið komið með bakið uppi við vegg og þurfti að spyrna frá. Það gekk í þriðju hrinunni sem endaði 25:23 fyrir Íslandi og svo í sigur í fjórðu hrinunni 25:19. Leikurinn því jafn í hrinum 2:2.

Oddahrinan byrjaði betur okkar megin og vann íslenska liðið frækinn sigur í henni 15:9 og þar með leikinn 3:2. Stigahæst í liði Íslands í leiknum var María Rún Karlsdóttir með 25 stig en Elísabet Einarsdóttir fyrirliði kom þar næst með 21 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert