Vankantar á lyfjaeftirliti á Ólympíuleikunum

Lokaathöfn Ólympíuleikanna í Ríó var glæsileg.
Lokaathöfn Ólympíuleikanna í Ríó var glæsileg. AFP

Alvarlegir vankantar voru á því hvernig lyfjaeftirliti var háttað á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst, að því er fram kemur í skýrslu Alþjóða lyfjaeftirlitsins, Wada.

Vankantarnir eru sagðir skrifast á skort á fjármagni í eftirlitið og mun færri sjálfboðaliðum en reiknað hafði verið með. „Ef að maður reiknar með ákveðnum fjölda fólks til vinnu og aðeins 50% mæta þá er komið upp vandamál,“ sagði sir Craig Reedie, forseti Wada.

Í skýrslunni segir að suma keppnisdaga hafi þurft að hætta við allt að 50% þeirra lyfjaprófa sem áætlað hafi verið að gera. Þar kemur einnig fram að af þeim 11.470 keppendum sem tóku þátt á leikunum hafi 4.125 þeirra ekki gengist undir lyfjapróf árið 2016, og þar af hafi 1.913 verið að keppa í tíu íþróttagreinum sem taldar eru sérstaklega áhættusamar hvað ólöglega lyfjanotkun varðar.

Í skýrslunni kom jafnframt fram að tæplega 100 sýni hefðu ekki passað við neinn íþróttamann vegna rangrar skráningar. Eitt sýni týndist og fannst ekki fyrr en tveimur vikum eftir leikana. Lítið sem ekkert var um að blóðsýni væru tekin í greinum þar sem þó er talin meiri hætta en í öðrum á ólöglegri lyfjanotkun, þar á meðal lyftingum. Alls átti að taka að minnsta kosti 500 fleiri lyfjapróf en gert var á leikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert