Aftur Íslandsmet og Hrafnhildur þrettánda

Hrafnhildur Lúthersdóttir í Ríó í sumar.
Hrafnhildur Lúthersdóttir í Ríó í sumar. mbl.is/Sindri Sverrisson

Hrafnhildur Lúthersdóttir hafnaði í þrettánda sæti í 50 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Windsor í Kanada og bætti Íslandsmet sitt í annað sinn í dag en undanúrslitunum í greininni var að ljúka.

Hrafnhildur, sem setti Íslandsmet í undanrásunum í dag þegar hún synti á 30,64 sekúndum og varð þá í fimmtánda sæti af 64 keppendum í greininni, bætti það enn frekar með því að synda á 30,47 sekúndum núna um miðnættið.

Átta efstu komust í úrslitin sem fara fram annað kvöld og Hrafnhildur hefði þurft að synda á 30,33 sekúndum til að ná því.

Hrafnhildur keppir aftur á föstudaginn og þá í 100 metra bringusundi.

Tae Hwan Park frá Suður-Kóreu vann fyrsta heimsmeistaratitil mótsins í kvöld þegar hann sigraði í 400 m skriðsundi karla á 3:34,59 mínútum.

Federica Pellegrini frá Ítalíu sigraði í kjölfarið í 200 m skriðsundi kvenna á 1:51,73 mínútu.

Úrslit í fimm greinum í viðbót ráðast á næsta klukkutímanum en þetta var fyrsti keppnisdagurinn af sex á mótinu. Því lýkur á sunnudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert