Hanna og Elvar íþróttamenn Árborgar

Guðmundur Kristinn Jónsson formaður UMF Selfoss t.v. ásamt Hrafnhildi Hönnu …
Guðmundur Kristinn Jónsson formaður UMF Selfoss t.v. ásamt Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur og Elvari Erni Jónssyni, íþróttamönnum Árborgar 2016. Ljósmynd/Árborg

Handknattleiksfólkið Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Elvar Örn Jónsson voru í gær valin íþróttakona og íþróttakarl sveitarfélagsins Árborgar. Einnig voru um tveir tugir íþróttamanna heiðraðir fyrir Íslandsmeistaratitla eða hlut styrki úr afrekssjóði sveitarfélagsins.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er íþróttakona Árborgar árið 2016.  Hún hefur verið besti leikmaður handknattleiksliðs Selfoss sem spilar í efstu deild auk þess að vera markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar í handbolta og vera fastamaður í A-landsliði Íslands.  Hrafnhildur Hanna er 21 árs.

Í öðru sæti kjörsins varð fimleikakonan Margrét Lúðvígsdóttir og taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir varð þriðja.

Elvar Örn Jónsson er íþróttamaður Árborgar 2016.  Hann hefur verið besti leikmaður handknattleiksliðs Selfoss sem spilar í efstu deild, hann er meðal markahæstu manna deildarinnar þrátt fyrir að vera einungis 19 ára, hann hefur verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands og var nú nýverið valinn í A-landsliðs Íslands í fyrsta sinn.

Í öðru sæti kjörsins varð fimleikamaðurinn Ríkharð Atli Oddsson og júdómaðurinn Egill Blöndal varð þriðji.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert