Á móti þeim bestu í Ástralíu – stefnir á ÓL 2020

Ljósmynd/Sigurður Örn Ragnarsson.

Þríþrautarkappinn Sigurður Örn Ragnarsson heldur brátt til Ástralíu þar sem hann mun keppa dagana 17. til 19 mars í ofurdeildinni í þríþraut við þá allra bestu í greininni sem inniheldur meðal annars heims- og ólympíumeistara. 

Mbl.is tók púlsinn á Sigurði fyrir mótið en hann heldur til Ástralíu á þriðjudaginn þar sem hann mun dvelja við æfingar í Sydney í Ástralíu næstu tvær vikurnar fyrir keppnina, en Sigurður er hálfur atvinnumaður í greininni, „semi-pro“ eins og hann kallar það sjálfur, og vinnur með íþróttinni.

Ofurdeildin er ný þríþrautarsería í heiminum sem er með marga af bestu keppendum í heimi í bæði stuttum og lengri vegalengdum, þar sem bestu keppendur í heimi í járnkarli, hálfum járnkarli, hálf-ólympískri þríþraut, styttri vegalengdum og ólympískri þríþraut, mæta til leiks, en eins og nafnið gefur til kynna er keppt í þeirri síðastnefndu á Ólympíuleikum.

„Tókýó 2020 er langtímamarkmiðið“

„Þangað er ég að stefna núna. Það er 1.500 metra sund, 40 km á hjóli og 10 km hlaup. Tókýó 2020 er langtímamarkmiðið hjá mér. Ég setti mér það markmið fyrir tveimur árum síðan,“ sagði Sigurður við mbl.is en hann er Íslandsmeistari í sprettþraut.

Sigurður Örn á fullri ferð.
Sigurður Örn á fullri ferð. Ljósmynd/Sigurður Örn Ragnarsson.

Hann lítur á þessa keppni sem gott skref í þá átt. „Það er ákveðin viðurkenning að fá að spreyta mig í þessari keppni á móti þessum gæjum. Þarna er núverandi ólympíumeistari, núverandi heimsmeistari og fimmfaldur heimsmeistari og svona. Maður veit að ef maður nær að standa eitthvað í þeim hversu langt maður er frá því,“ sagði Sigurður.

„Þessi sería inniheldur alla þá bestu í heiminum í dag, hvort sem það er í stuttum vegalengdum eða lengri,“ sagði Sigurður Örn.

Klár í slaginn.
Klár í slaginn. Ljósmynd/Sigurður Örn Ragnarsson.

Keppnin er sú fyrsta af mörgum í nýrri alþjóðlegri seríu sem ber heitið Super League Triathlon á ensku, en það er fyrrverandi heimsmeistarinn í járnkarli, Chris McCormack, sem er einn aðalstofnandi keppninnar. Síminn mun sýna frá keppninni í Sjónvarpi Símans en það er einn af aðalstyrktaraðilum keppninnar og átti hlut í að Sigurður fékk þátttökurétt í keppninni.

Keppt verður yfir þrjá daga í mismunandi vegalengdum, í bæði sundi, á hjóli og í hlaupi en á degi þrjú keppa efstu menn til úrslita. 

Ljósmynd/Sigurður Örn Ragnarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert