„Þetta er ákveðið stökk“

Aníta á verðlaunapallinum í Belgrad í gær.
Aníta á verðlaunapallinum í Belgrad í gær. AFP

„Mér líður mjög vel. Þetta hefur verið markmiðið lengi. Það er gott að geta núna fylgt eftir þeim verðlaunum sem ég fékk á stórmótum þegar ég var yngri. Þetta er ákveðið stökk,“ sagði Aníta Hinriksdóttir við Morgunblaðið í gær, eftir að hafa tryggt sér bronsverðlaun í 800 metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum innanhúss í Belgrad.

Þetta eru fyrstu verðlaun Anítu á stórmóti fullorðinna en hún hafði hlaupið til úrslita á EM innanhúss 2015 og HM innanhúss í fyrra, sem og á EM utanhúss síðasta sumar. Sumarið 2013 varð Aníta heimsmeistari 17 ára og yngri og Evrópumeistari 19 ára og yngri.

Aníta er fyrsti Íslendingurinn í 16 ár til að vinna verðlaun á stórmóti fullorðinna í frjálsum, eða síðan Jón Arnar Magnússon fékk silfur í sjöþraut á HM innanhúss í Lissabon 2001. Hún er fimmti Íslendingurinn sem fær verðlaun á EM innanhúss. Jón Arnar fékk brons í sjöþraut 1996, Vala Flosadóttir fékk gull og brons í stangarstökki (1996 og 1998), Pétur Guðmundsson brons í kúluvarpi 1994 og Hreinn Halldórsson gull í kúluvarpi árið 1977.

„Það er heiður að vera í þessum hópi,“ sagði Aníta, sem er jafnframt tíundi Íslendingurinn sem fær verðlaun á stórmóti í frjálsum íþróttum ef mót innan- og utanhúss (EM, HM og ÓL) frá upphafi eru talin.

Aníta hljóp á 2:01,25 mínútum í úrslitahlaupinu í gær, afar nærri Íslandsmeti sínu, en Selina Büchel frá Sviss varði Evrópumeistaratitil sinn og Shelayna Oskan-Clarke frá Bretlandi varð í 2. sæti. Büchel hljóp á 2:00,38 mínútum og var aðeins sjónarmun á undan Oskan-Clarke. Aníta, sem átti næstbesta tímann í undanúrslitum á laugardag, sagðist hafa haft nokkuð góða tilfinningu fyrir úrslitahlaupinu:

„Já, svona ágæta. Ég þurfti aðeins að læra af hlaupinu í undanúrslitunum, að slaka betur á og ekki fara svona hratt fyrstu 200 metrana.“

Sjá allt viðtalið við Anítu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert