Gunnar stendur í stað

Gunnar Nelson vann Alan Jouban af öryggi í 2. lotu …
Gunnar Nelson vann Alan Jouban af öryggi í 2. lotu á laugardagskvöld. Ljósmynd/UFC

Þrátt fyrir afar öruggan sigur á Alan Jouban í London um síðustu helgi stendur Gunnar Nelson í stað á styrkleikalista UFC í veltivigt.

Nýr listi var birtur í gær og er Gunnar áfram í 9. sæti af þeim 15 sem eru á veltivigtarlistanum. Jouban var og er ekki á listanum og því hefur sigur Gunnars á Bandaríkjamanninum minna vægi en ella.

Átján sérfræðingar skipa valnefndina sem raðar mönnum á styrkleikalista og hafa þeir jafnt vægi hver. Sumir þeirra færðu Gunnar ofar á lista hjá sér, eins og til að mynda Jeff Cain hjá MMA Weekly færði Gunnar upp í 6. sæti hjá sér, upp fyrir Carlos Condit og Jorge Masvidal. Hjá flestum stendur Gunnar hins vegar í stað frá listanum í síðustu viku.

Forrest Griffin og Matt Parrino ræða um styrkleikalistann í myndbandi á vef UFC og benda á að kannski hefði Gunnar átt að færast upp í 8. sæti, upp fyrir Donald Cerrone. Þá eru þeir spenntir fyrir möguleikanum á að Gunnar og Stephen Thompson mætist í átthyrningnum.

Engar breytingar urðu á röðun manna í veltivigtarflokknum. Tyron Woodley er ríkjandi meistari, en Stephen Thompson kemur svo í 1. sæti, Robbie Lawler í 2. sæti og Demian Maia í 3. sæti.

Listann í heild má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert