HK náði forystunni gegn Þrótti

Leikmenn HK fagna sigrinum gegn Þrótti Neskaupstað í dag.
Leikmenn HK fagna sigrinum gegn Þrótti Neskaupstað í dag. Ljósmynd/blakfrettir.is

HK og Þróttur frá Neskaupstað mættust í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki karla á heimavelli HK í Fagralundi í dag. HK hafði betur eftir jafnan og æsispennandi leik, en tvo sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið.

Heimamenn í HK byrjuðu betur og áttu í litlum vandræðum með Þróttara í fyrstu hrinu sem endaði 25-17, HK í vil. Í annarri hrinu snerist dæmið við, Þróttarar gerðu allt rétt og komust fljótlega í góða forystu. Undir lok hrinunnar náðu HK-ingar aðeins að laga stöðuna en Þróttarar sigruðu aðra hrinu þó 25:19. 

Í þriðju hrinu var svo aftur komið að HK að spila sterkan leik og leikurinn orðinn mjög kaflaskiptur. HK fór með sigur af hólmi í þriðju hrinu 25:20, eftir að hafa að hafa verið yfir 23:15.

Fjórða hrina var hins vegar æsispennandi og jöfn allan tímann. Liðin skiptust á frábærum sóknum og vörnum og var baráttan gífurleg. Þróttarar náðu að klóra fram sigur í hrinunni, 26:24, og tryggðu sér þannig oddahrinu og möguleika á að stela sigrinum á útivelli.

Í oddahrinunni tóku HK-ingar völdin og juku forskotið þangað til í stöðunni 12:6. HK kláruðu svo hrinuna 15-8 og sigruðu þar með leikinn 3:2, eftir tæplega tveggja klukkustunda leik.

Stigahæstu leikmenn liðanna voru Jorge Castano frá Þrótti, með 26 stig, og Theódór Óskar Þorvaldsson úr HK, með 21 stig.

Næsti leikur í einvíginu fer fram mánudaginn 27. mars klukkan 19:00 þegar leikið verður í Neskaupstað. Sigri HK komast þeir í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn, en Þróttarar geta tryggt sér oddaleik með því að sigra. Sá leikur yrði leikinn í Kópavogi miðvikudaginn 29. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert