Afturelding vann fyrsta leik

Afturelding er komin í góða stöðu í undanúrslitum Íslandsmótsins í …
Afturelding er komin í góða stöðu í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki. Ljósmynd/Raggi Óla

Afturelding vann 3:0 sigur á Þrótti Neskaupstað í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki í Mosfellsbæ í dag. Aftureldingu dugar einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í úrslitum.

Í fyrstu hrinu var jafnt á með liðunum en um miðja hrinu náði Afturelding að slíta sig frá Þrótturum og vann hrinuna örugglega, 25:18. Í hrinu tvö náði Afturelding fljótlega undirtökunum og vann hrinuna 25:17. Í þriðju hrinu var Afturelding síðan mikið sterkari og gaf Þrótturum aldrei tækifæri að komast inn í leikinn.

Í stöðunni 12:3 tók þjálfari Þróttara leikhlé til að reyna að koma sínum leikmönnum í gang en Afturelding gaf ekkert eftir og sigraði hrinuna örugglega 25:12 og tók forystu í einvíginu en vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér réttinn til að spila um Íslandsmeistaratitilinn.

Þjálfari Aftureldingar dreifði álaginu vel á sínu liði og virkaði það mjög heilsteypt og öruggt í sínum aðgerðum. Hið unga lið Þróttara átti í þessum leik við ofurefli að etja en næsti leikur fer fram á heimavelli Þróttara á þriðjudaginn og hefst leikurinn kl. 19:00.

Stigahæstar í leiknum fyrir Aftureldingu voru þær Thelma Dögg Grétarsdóttir með 14 stig  og Velina Apostolva með 10 stig. Hjá Þrótturum voru stigahæstar með 6 stig þær Heiða Gunnarsdóttir og Ana Maria Vidal Bouza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert