HK í úrslit – KA náði í oddaleik

Leikmenn HK fagna sigri gegn Þrótti Neskaupstað.
Leikmenn HK fagna sigri gegn Þrótti Neskaupstað. Ljósmynd/blakfrettir.is

Karlalið HK í blaki tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn eftir sigur á Þrótti frá Neskaupstað í kvöld, 3:2 eftir oddahrinu. HK vann einvígi liðanna í undanúrslitunum 2:0.

HK vann fyrstu tvær hrinurnar, þá fyrri 25:18 og þá seinni 25:20, áður en heimamenn svöruðu. Þeir unnu næstu tvær hrinurnar, 25:23, og jöfnuðu leikinn eftir upphækkun í fjórðu hrinu, 27:25. Oddahrinan fór einnig í upphækkun, en þar hafði HK betur 17:15.

Theódór Óskar Þorvaldsson var stigahæstur hjá HK með 25 stig en hjá Þrótti var Jorge Castano stigahæstur með 24 stig.

KA tryggði oddaleik eftir oddahrinu

Á Akureyri mættust KA og Stjarnan í öðrum leik einvígisins, þar sem Stjarnan hefði getað tryggt sér sæti í úrslitum. Eftir upphækkun var það hins vegar KA sem tryggði oddaleik, 3:2.

Liðin skiptust á að vinna hrinurnar. KA vann þá fyrstu 25:20, Stjarnan svaraði hins vegar með sigri í næstu, 25:17. KA komst í 2:1 með sigri í þriðju hrinunni, 25:17. Stjarnan tryggði hins vegar oddahrinu með sigri í þeirri fjórðu, 25:20. Í oddahrinunni voru það svo KA-menn sem voru sterkari og unnu hana 15:13.

Hristiyan Dimitrov var stigahæstur hjá KA í leiknum með 29 stig, en hjá Stjörnunni var Michael Pelletier stigahæstur með 15 stig. Oddaleikur liðanna fer fram í Ásgarði í Garðabæ á miðvikudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert