Stjarnan vann oddaleikinn og fer í úrslit

KA-mennirnir Filip Pawel Szewczyk og Alexander Arnar Þórisson í leiknum …
KA-mennirnir Filip Pawel Szewczyk og Alexander Arnar Þórisson í leiknum í kvöld en til varnar eru Benedikt Baldur Tryggvason og Ismar Hadiziredzepovic. Austris Bucovskis er svo í fjarska í liði Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Það verða Stjarnan og HK sem mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í blaki, en þetta var ljóst eftir að Stjarnan lagði KA, 3:1, í oddaleik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Garðabænum í kvöld.

Leikurinn var jafn og æsispennandi. Stjarnan vann fyrstu hrinuna 25:22, en KA-menn sneru taflinu við í þeirri næstu, 25:22, og jöfnuðu leikinn. Í þriðju hrinu voru Stjörnumenn sterkari og unnu hana 25:19, en í þeirri fjórðu var gríðarhart barist. Hrinan fór í upphækkun og það fór svo að lokum að Stjarnan vann hana 29:27 og leikinn 3:1.

Róbert Karl Hlöðversson var stigahæstur hjá Stjörnunni með 11 stig, en þeir Benedikt Baldur Tryggvason og Michael Pelletier komu á hæla hans með 10 stig. Hjá KA átti Hristiyan Dimitrov enn einn stórleikinn og skoraði 21 stig.

Það verða því HK og Stjarnan sem mætast í úrslitaeinvíginu, en HK hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn síðastliðin fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert