Ísland sigraði í San Marínó

Íslenska sveitin sem keppti í San Marínó.
Íslenska sveitin sem keppti í San Marínó.

Ísland bar sigur úr býtum í liðakeppni Smáþjóðaleikanna í ólympískum lyftingum sem fram fóru í San Marínó í gær. Þeta er í fyrsta skipti frá árinu 1989 sem Ísland vinnur liðakeppnina á þessu móti.

Liðakeppnin fer þannig fram að þrír karlar og tvær konur keppa og er samanlögð Sinclair-stigatala reiknuð upp fyrir þessa fimm keppendur. Þetta er annað árið í röð sem konur eru með í stigakeppninni en áður voru það einungis þrír karlar sem voru í henni.

Björk Óðinsdóttir og Einar Ingi Jónsson urðu stigahæstu keppendur mótsins í kvenna- og karla flokki. Aðeins 0.14 stig voru á milli Einars Inga Jónssonar og liðsfélaga hans Guðmundar Högna Hilmarssonar en Guðmundur Högni snaraði og jafnhenti nýjum Íslandsmetum í -94 kg flokki karla.

Björk Óðinsdóttir keppti í -63 kg flokki kvenna, hún lyfti 75 kg og 80 kg í snörun og reyndi síðan við 85 kg í þriðju tilraun sem hefði verið nýtt Íslandsmet en það fór ekki upp. Í jafnhendingu lyfti hún 95 kg, 100 kg og 106 kg sem var jöfnun á íslandsmeti Þuríðar Erlu Helgadóttur og keppnisbæting hjá Björk í jafnhendingu um 4 kíló.

Sólveig Sigurðardóttir keppti í -69 kg flokki. Hún náði ekki að framkvæma snörunina eins og hún vildi og náði aðeins einni gildri lyftu, 75 kílóum. Jafnhendingin gekk hinsvegar eins og í sögu og lyfti hún 98 kg, 103 kg og 107 kg en allt voru það met í flokki 23 ára og yngri og 107 kg lyftan yfir Íslandsmeti í -63 kg flokki kvenna og persónuleg bæting hjá Sólveigu.

Einar Ingi Jónsson var léttastur karl keppendanna, 71,47 kg, og keppti því í -77kg flokki. Hann snaraði 112 kg í annari tilraun eftir að hafa klikkað á þeirri þyngd í fyrstu tilraun. Hann klikkaði síðan á 118 kg í þriðju tilraun. Í jafnhendingu byrjaði hann á 142 kg en fékk síðan 148 kg ógilt fyrir svokallaða pressu. Hann fékk því aðeins 2 af 6 lyftum gildar en það dugði honum til þess að vera með stigahæsta árangur allra karlkyns keppenda.

Guðmundur Högni Hilmarsson átti gott mót en hann vigtaðist 93,88 kg og keppti í -94 kg flokki karla. Guðmundur snaraði 128 kg og 134 kg sem var nýtt Íslandsmet. Hann reyndi síðan við 136 kg í þriðju tilraun. Í jafnhendingu lyfti hann 155 kg og 160 kg sem var nýtt Íslandsmet og var árangur hans einnig nýtt Islandsmet í samanlögðum árangri.

Bjarmi Hreinsson keppti líkt og Guðmundur í -94kg flokki. Hann snaraði 118 kg og 128 kg og reyndi líkt og Guðmundur Högni við 136 kg í lokatilraun og var mjög nærri því að lyfta þeirri þyngd. Bjarmi átti eldra metið í flokknum, 133 kg, sett fyrir ári síðan á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru á Kýpur 2016. Bjarmi byrjaði jafnhendinguna á 145 kg en klikkaði síðan naumlega á 153 kg og 155 kg í annari og þriðju tilraun.

Þetta var í 39. sinn sem Smáþjóðaleikarnir í ólympískum lyftingum voru haldnir. Það var töluverður missir að því að lið Kýpur sem hefur oftast unnið mótið síðustu ár þurfti að draga sig úr leik að sökum fjárhagsvandræða sambandsins þar í landi. Ísland vann því mótið, lið Möltu varð í öðru sæti og San Marínó í þriðja sæti.

Í tilkynningu frá Lyftingasambandi Íslands segir að Ísland muni halda 40. Smáþjóðaleikana á næsta ári, 2018,  og verði þar með gestgjafi þeirra í fyrsta skipti. Líkt og á Íslandi hafi mikil sprenging orðið í iðkun íþróttarinnar í ríkjum smáþjóða Evrópu og búast megi við góðri keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert