Sparslar í afreksmenn án óþarfa áhættu

Pétur Örn Gunnarsson við dagleg störf sem sjúkraþjálfari í Orkuhúsinu …
Pétur Örn Gunnarsson við dagleg störf sem sjúkraþjálfari í Orkuhúsinu í Reykjavík mbl.is/Hanna
Pétur Örn Gunnarsson er ekki þekktasta nafnið í íþróttaheiminum á Íslandi. Engu að síður er hann sjaldnast langt undan þegar margir af vinsælustu íþróttamönnum þjóðarinnar mæta til keppni.
Pétur hefur síðan 2008 verið sjúkraþjálfari karlalandsliðsins í handbolta og var hluti af starfsteymi liðsins sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Síðasta haust bættist hann við sjúkraþjálfarateymi karlalandsliðsins í fótbolta sem náði sögulega góðum árangri í Evrópukeppninni í Frakklandi í fyrrasumar.

Pétur hefur því verið innanbúðarmaður hjá sögulega góðum landsliðum á íslenskan mælikvarða. Morgunblaðinu lék forvitni á að vita með hvaða augum sjúkraþjálfarinn sér afreksmennina og fá um leið innsýn í hvað felst í hans starfi í kringum landsleiki. Þegar Pétur hafði samþykkt að ræða aðeins um sína upplifun var hann fyrst spurður hvort dæmi væru um að sami sjúkraþjálfarinn væri að starfa með fótbolta- og handboltalandsliði á sama tíma?

„Ég held bara að þessi staða hafi ekki komið upp áður. Ég veit alla vega ekki til þess. Þessi vinna er svipuð á margan hátt þó að yfirleitt séu aðeins stærri skrokkar í handboltanum. Meðferðirnar eru til dæmis svipaðar. Algengustu álagsmeiðslin í þessum greinum hafa verið rannsökuð í þaula og í þessum greinum er það mjóbakið í báðum tilfellum,“ segir Pétur en þar er hann á heimavelli verandi sérhæfður í vandamálum er varða mjóbakið. Hann segir starfsumhverfið þó vera ólíkt á vissan hátt.

„Umgjörðin er ólík, einfaldlega vegna þess að allt er stærra í sniðum í kringum fótboltalandsliðin. Meira fjármagn, fleira starfsfólk og þess háttar enda eru þetta ólíkir heimar hvað það varðar. Hins vegar er fagmennskan hjá landsliðsmönnunum sjálfum í fótboltanum og handboltanum mjög svipuð. Þeir hugsa mjög vel um sig og þar er ekkert bull í gangi. Þetta er sama rútínan hjá þessum mönnum: æfa, borða, hvíla sig, fara í sjúkraþjálfun og sofa. Alla vega á þessum tímapunktum sem ég er í kringum þá, sem eru þá landsliðsverkefnin. Menn geta reyndar verið misjafnir og Óli Stef (Ólafur Stefánsson) átti það til að fara einn í göngutúr, setjast á kaffihús með minnisbókina sína og pæla. Ég hef ekki séð það mikið hjá öðrum en síðan kom Óli bara inn á völlinn og var yfirleitt geggjaður.“

Sjá viðtal við Pétur í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert