Öruggur sigur hjá Ásdísi

Ásdís býr sig undir að kasta spjótinu í dag.
Ásdís býr sig undir að kasta spjótinu í dag. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari úr Ármanni, varð hlutskörpust í spjótkasti kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Selfossi. Ásdís bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í dag, en kastið sem tryggði henni Íslandsmeistaratitilinn var 56,75 metrar sem er mótsmet.

Irma Gunnarsdóttir, spjótkastari úr Breiðabliki, lenti í öðru sæti, en hún kastaði spjótinu 42,66 metra. María Rún Gunnlaugsdóttir, spjótkastari úr FH, hafnaði síðan í þriðja sæti með kasti upp á 41,80 metra.

Þrátt fyrir yfirburði Ásdísar í keppninni var hún töluvert frá sínu besta á Selfossi í dag, en Íslandsmet hennar er 62,77 metrar.

Í sleggjukasti unnu FH-ingar örugga sigra. Vigdís Jónsdóttir kastaði 55,67 m og sigraði í kvennaflokki og Hilmar Örn Jónsson kastaði 69,16 m og sigraði í karlaflokki.

Heimamenn í HSK/Selfoss unnu tvo Íslandsmeistaratitla. Guðrún Heiða Bjarnadóttir sigraði í langstökki kvenna eftir harða keppni með stökk upp á 5,78 m sem er persónulegt met og Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 1.500 m hlaupi karla á 4:00,40 mín.

Meðal annarra úrslita dagsins má nefna að Kristinn Torfason, FH, sigraði með yfirburðum í langstökki, stökk 7,18 m. Kormákur Ari Hafliðason, FH, sigraði í 400 m hlaupi karla á 48,87 sek og Vilhelmína Þór Óskarsdóttir, Fjölni, sigraði í 400 m hlaupi kvenna á 59,25 sek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert