Hilmar fékk lausa sætið á HM

Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir Ljósmynd/Guðmundur Karl

Þrír íslenskir keppendur taka þátt á heimsmeistaramótinu frjálsum íþróttum sem fram fer í Lundúnum dagana 4.-13. ágúst.

Aníta Hinriksdóttir, ÍR, keppir í 800 metra hlaupi. Ásdís Hjálmsdóttir, Ármanni, í spjótkasti og FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson keppir í sleggjukasti. Aníta og Ásdís náðu lágmörkum fyrir HM en Hilmar ekki. Ísland hefur hins vegar rétt á að senda einn karlkeppanda án lágmarks og varð Hilmar fyrir valinu en hann hafði betur í baráttunni við kringlukastarann Guðna Val Guðnason og spjótkastarann Sindra Hrafn Guðmundsson.

Ásdís Hjálmsdóttir náði lágmarki á Heimsmeistaramótið 12. júlí sl. þegar hún keppti á alþjóðlegu móti í Jonesuu, Finnlandi. Hún kastaði 63,43 m á mótinu, vann  spjótkastskeppnina og bætti um leið tæplega 5 ára gamalt Íslandsmet sitt í greininni. Með þessu kasti tryggði hún sér um leið þátttökurétt á HM en lágmarkið er 61,40 m.

Ásdís keppir í undankeppni spjótkastsins 6. ágúst kl. 18:05 eða kl. 19:30. Úrslit í spjótkasti kvenna fara fram 8. ágúst kl. 18:20.

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aníta Hinriksdóttir  náði lágmarki á Heimsmeistaramótið 27. maí sl. þegar hún keppti í 800 m í Oordegem í Hollandi. Hún hljóp á tímanum 2:00,33 mín og hafnaði í 2. sæti í hlaupinu. HM lágmarkið í 800 m kvenna er 2:01,00 mín.

Aníta keppir í undanriðlum í 800 m hlaupi kvenna 10. ágúst kl. 18:25. Undanúrslit í 800 m hlaupi kvenna fara fram 11. ágúst kl. 18:35 og úrslitin fara fram 13. ágúst kl. 19:10.

Hilmar Örn Jónsson.
Hilmar Örn Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hilmar Örn Jónsson FH bætti Íslands­met sitt í sleggjukasti í flokki 20-22 ára pilta 7. júní sl. þegar hann keppti á banda­ríska há­skóla­meist­ara­mót­inu sem fram fór í Eu­gene, Oregon. Hann kastaði 72,38 m og bætti fyrra metið um 26 sentímetra. Lágmarkið á HM í sleggjukasti karla er 76,00 m.

Hilmar Örn keppir í undankeppni sleggjukastsins 9. ágúst kl. 18:20 eða kl. 19:50. Úrslit í sleggjukasti karla fara fram 11. ágúst kl. 19:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert