Ætlar að hætta ósigraður eftir HM í London

Usain Bolt leggur skónna á hilluna.
Usain Bolt leggur skónna á hilluna. AFP

Hraðskreiðasti maður heims, Usain Bolt, setur tóninn fyrir heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum í dag þegar hann hleypur í fyrstu grein mótsins, undankeppni 100 metra hlaupsins. Mótið fer fram á ólympíuleikvangnum í Lundúnum en heimsmeistaramótið er kveðjumót kappans, sem hefur gefið út að hann ætli að leggja skóna á hilluna að móti loknu.

Bolt er fyrsti maðurinn sem á heimsmet í bæði 100 og 200 metra hlaupi frá því að tímatökuaðferðin sem nú er notuð var tekin upp. Usain Bolt er einn merkasti íþróttamaður mannkynssögunnar og ætlar sér ekki að hætta að stunda íþróttir þó svo að hann ljúki keppni í frjálsum íþróttum. Spretthlauparinn er áttfaldur ólympíumeistari og ellefufaldur heimsmeistari sem hefur mikla yfirburði í sínum greinum. Bolt er miðpunktur athyglinnar í Lundúnum, en flestir áhorfendur mótsins eru eflaust mættir til að sjá hann hlaupa.

Bolt keppir í undanrásum í 100 metra hlaupi í dag og síðan í undanúrslitum og úrslitum annað kvöld og hann ætlar sér sinn fjórða heimsmeistaratitil í greininni. Hann vann hana einnig í Berlín árið 2009, Moskvu 2013 og Peking árið 2015. Þar að auki mun hann keppa í boðhlaupi með löndum sínum frá Jamaíka.

Hann kveðst vilja hætta sem ósigrandi og vill að sín verði minnst þannig.

Greinin í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert