Ian Woosnam fyrirliði Ryderliðs Evrópu hefur áhyggjur af veðurspánni fyrir næstu daga. Veðurfræðingar spá því að leifar af fellibylnum Gordon gætu farið yfir Írland á næstu dögum . „Það eina sem við höfum áhyggjur af er hvort völlurinn verður í leikhæfu ástandi. Við getum alltaf leikið, hvernig sem veðrið verður, en völlurinn þarf að vera leikfær,“ sagði Woosnam við fréttamenn í dag. Á mánudag var gríðarleg úrkoma á K-Klub vellinum og voru sandglompur á vellinum yfirfullar af vatni. Vallastarfsmenn hafa á undanförnum dögum staðið í ströngu við að koma vatninu úr glompunum. Fyrirliðarnir Ian Woosnam og Tom Lehman hafa rætt við forsvarsmenn keppninnar á fundum þar sem lagt hefur verið til að kylfingar fái að merkja bolta á braut, lyfta boltanum og hreinsa. Fyrirliðarnir vonast til þess að þessi regla verði ekki notuð.
Woosnam segir að kylfingarnir í Evrópuliðinu hafi slappað af eftir fyrsta æfingadaginn. „Við vorum með liðsfund í stutta stund, fengum okkur síðan nokkra drykki og ræddum saman,“ sagði Woosnam. Breskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um Woosnam í dag og hvaða orð hann hefur notað um kylfinga liðsins. Það sem vakti mesta athygli var að hann telur að Sergio Garcia, stighæsti kylfingur Evrópuliðsins, þurfi á leiðtoga halda í fjórmenning og fjórleik keppninnar. Woosnam valdi Jose Maria Olazabal til þess að leika æfingahring með Garcia í dag. „Ég tel að Olazabal sé leiðtogi sem Garcia þarf á að halda en Garcia er enn ungur og á framtíðina fyrir sér. Ég lét sænsku kylfingana Robert Karlsson og Henrik Stensson æfa saman. Þeir eru svipaðir kylfingar, gríðarlega högglangir. Þeir tala sama tungumál og þeir vinna vel saman,“ sagði Woosnam.