Bandaríski kylfingurinn Brian Gay gerði engin mistök á fyrsta keppnisdegi Chrysler meistaramótsins í golfi á PGA-mótaröðinni í fyrrakvöld er hann lék á 7 höggum undir pari eða 65 höggum. Gay er þremur höggum betri en Mark Calcavecchia sem einnig er bandarískur en þar á eftir koma þeir Steve Elkington, Daniel Chopra, Duffy Waldorf og Heath Slocum sem eru allir þremur höggum á eftir efsta manni. Gay, sem er 34 ára, hefur leikið á PGA-mótaröðinni í átta ár án þess að sigra og tvívegis hefur hann endað í öðru sæti.
Hann er í 96. sæti á peningalista PGA og hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á PGA-mótaröðinni á næsta ári, þar sem að 125 efstu á peningalistanum fá sjálfkrafa keppnisrétt.
Calcavecchia, sem sigraði hefur á Opna breska meistaramótinu er í 128. sæti á peningalistanum en hann er 46 ára gamall. Hann þarf hinsvegar ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni á listanum þar sem hann fékk tveggja ára keppnisrétt á PGA með því að sigra á Opna kanadíska meistaramótinu fyrr á þessu ári. Hann hefur 12 sinnum sigrað á PGA-mótaröðinni og á Opna breska árið 1989. Að auki hefur Calcavecchia sigrað á fimm mótum í Evrópu og Asíu.