„Ég byrjaði vel og setti niður frekar langt pútt fyrir fugli á 1. flöt og á 2. og 4. var ég einnig nálægt því að fá fugl. Ég hélt að þetta yrði minn dagur á flötunum eftir fyrsta púttið en það gerðist ekki. Ég fékk fjóra skolla og þrír þeirra voru mjög klaufalegir þar sem ég var að missa stutt pútt fyrir pari,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG við mbl.is rétt í þessu en hann lék á pari á þriðja keppnisdegi TCL-meistaramótsins á Hainan eyju í Kína í nótt.
Birgir er samtals á 6 höggum undir pari eftir að hafa leikið á 68, 70 og 72 höggum en hann er í 47. sæti ásamt fleiri kylfingum. Alls komust 65 kylfingar í gegnum niðurskurðinn.
„Aðstæður í dag voru allt aðrar en á undanförnum tveimur dögum. Vindurinn lét á sér kræla og það var mjög sterkur mótvindur á þremur par 5 holum og tveimur löngum par 3 holum. Ég hefði að sjálfsögðu viljað leika betur en á parinu en ég held að ég breyti ekki miklu fyrir síðasta keppnisdaginn. Leikskipulagið verður það sama. Taka áhættu þegar færin gefast en leika af öryggi þess á milli,“ sagði Birgir.
Hann fer á mánudagsmorgun til Lúxemborgar þar sem hann er búsettur og þaðan heldur hann til eyjunnar Madeira í Portúgal en þar hefst mót á Evrópumótaröðinni þann 22. mars. Að því móti loknu leikur Birgir á öðru móti í Portúgal sem fram fer rétt utan við Lissabon.
„Ferðalagið héðan frá Kína tekur sinn tíma og ég fæ ekki langan tíma til þess að undirbúa mig fyrir mótið á Madeira. Ég hef leikið á þeim velli áður á Evrópumótaröðinni og þekki því völlinn ágætlega. Þetta er bara hluti af pakkanum og þetta eru verkefni sem þarf bara að leysa, “ bætti Birgir við.
Nánar verður rætt við Birgi í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út síðar í dag.
Birgir hefur leik á fjórða og síðasta keppnisdegi mótsins rétt eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags og mótinu lýkur um kl. 9 á sunnudagsmorgun. Chapchai Nirat frá Taílandi er efstur fyrir lokadaginn á 21 höggi undir pari samtals en hann lék á 68 höggum í dag. Nirat fékk tvo skolla í röð á síðustu tveimur holunum í dag og þykja það stórtíðindi. Hann lék á 61 höggi á fyrsta keppnisdegi eða 11 höggum undir pari og er það vallarmet. Í gær var hann á 66 höggum eða 6 höggum undir pari. Nirat er með 5 högg í forskot fyrir lokadaginn á næstu keppendur.