Ogilvy og Jiminez efstir á Doral

Geoff Ogilvy byrjar vel í Flórída.
Geoff Ogilvy byrjar vel í Flórída. Reuters

Þeir Geoff Ogilvy frá Ástralíu og Miguel Angel Jimenez frá Spáni eru efstir eftir fyrsta daginn á CA-heimsmótinu í golfi sem fram fer á Doral-vellinum í Florida. Þeir eru á sjö höggum undir pari og halda hinum ósigrandi Tiger Woods tveimur höggum á eftir sér.

Ogilvy og Jimenez eru á 65 höggum hvor, Stewart Cink frá Bandaríkjunum lék á 66 höggum og síðan kemur Tiger Woods á 67 höggum ásamt Phil Mickelson, Adam Scott, hinum danska Anders Hansen og Nick O'Hern. Þeir Scott og O'Hearn eru Ástralar, sem þar með eiga þrjá af átta efstu mönnum sem stendur.

„Það liggur ljóst fyrir að ef manni á að takast að vinna mótið, þá verður maður að sigra Tiger Woods því það er ljóst að hann verður með í baráttunni þegar kemur að síðustu níu holunum á sunnudaginn. Hann kann vel við sig hér en ef ég næ að vera einu höggi á undan honum á hverjum degi, verður þetta ansi gott," sagði Ogilvy við fréttamenn í kvöld.

Tiger hefur ekki tapað síðan í september, unnið sex mót í röð, og stefnir að því sjöunda. „Ég gerði ekkert sérstakt í dag, náði bara að hanga í efstu mönnum án þess að gera einhverjar rósir," sagði meistarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka