Ogilvy stöðvaði sigurgöngu Woods

Geoff Ogilvy fagnaði sigri á CA-heimsmótinu í golfi.
Geoff Ogilvy fagnaði sigri á CA-heimsmótinu í golfi. Reuters

Geoff Ogilvy frá Ástralíu sigraði á CA-heimsmótinu í golfi sem lauk í dag á Doral vellinum í Flórída. Hann lék samtals á 17 höggum undir pari en Retief Goosen frá Suður-Afríku, Vijay Singh frá Fijí og Jim Furyk frá Bandaríkjunum komu næstir á 16 höggum undir pari. Tiger Woods lék lokahringinn á 68 höggum eða 4 höggum undir pari og það skilaði honum í 5. sæti á 15 höggum undir pari. Woods hafði sigrað á 5 PGA-mótum í röð en hann náði sér ekki á strik á þriðja hringnum sem hann lék á pari, eða 72 höggum. 

Lokastaðan

Fyrir sigurinn fékk Ogilvy rúmlega 112 milljónir kr, eða 1,44 milljón bandaríkjadala. Ogilvy hefur  sigrað á 5 mótum á PGA-mótaröðinni frá því hann kom inná mótaröðina árið 2001 og er þetta annar sigur hans á heimsmótaröðinni. Hann sigraði árið 2006 á heimsmótinu í holukeppni þar sem hann hafði betur gegn Davis Love III í úrslitaleik. 

Aðeins tveir aðrir kylfingar hafa náð að sigra oftar en einu sinni á heimsmóti í golfi en Tiger Woods státar af  15 sigrum og Norður-írinn Darren Clarke hefur tvívegis sigrað á heimsmóti.

Heimsmótin eru þrjú á hverju ári en þessi mót voru sett á laggirnar árið 1999. Aðeins 50 efstu á heimslistanum í golfi á hverjum tíma fá keppnisrétt á þessum mótum auk efstu manna á peningalistanum á Evrópumótaröðinni og japönsku mótaröðinni. 

Hann sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2006 þegar Phil Mickelson missti niður tveggja högga forskot þegar þrjár holur voru eftir. Hann varð þar með fyrsti ástralski kylfingurinn til þess að fagna sigri á stórmóti frá því að Steve Elkington sigraði á PGA-meistaramótinu árið 1995.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka