„Ég er auðvitað öskuvondur og svekktur út í sjálfan mig að eyðileggja þrjá fína daga með svona spilamennsku. Þetta er bara ömurlegt,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG eftir síðasta hringinn á Estoril-mótinu í Portúgal. Birgir Leifur lék síðasta hringinn á sex höggum yfir pari og lauk leik á tveimur höggum undir pari.
„Ég er sáttur með hina þrjá hringina en þetta er fjögurra daga mót og maður verður að klára alla hringina en ekki lenda í einhverju svona dútli eins og í dag,“ sagði Birgir Leifur, mjög ósáttur við eigin frammistöðu.
Birgir Leifur hóf leik á fyrstu holu í gær og fékk par á fyrstu fimm holurnar. En þá kom sprengjan því sjöttu holuna, sem er par 4, 399 metra löng, lék hann á sjö höggum, þremur höggum yfir pari.
„Þetta byrjaði þokkalega og var allt í lagi þrátt fyrir að ég hefði alls ekki verið nógu sáttur með sláttinn á æfingasvæðinu fyrir hringinn. Ég sló nokkur högg til vinstri á hinum þremur hringjunum en náði að bjarga mér þokkalega út úr því. Á sjöttu holu kom ömurlegt högg og eftir það missti ég algjörlega sjálfstraustið í slættinum og þá fygldu púttin í kjölfarið og þau duttu ekki,“ sagði Birgir Leifur.
„Já, það má kannski segja að þessar þrjár hafi verið í lagi en þetta óöryggi var alltaf og mér leið bara ekki vel yfir boltanum í dag,“ sagði Birgir Leifur.
Á tíundu holu fékk Birgir Leifur tvöfaldan skolla, en holan er 406 metra löng par fjórir. „Ég tók fáránlega ákvörðun þegar ég fékk tvöfalda skollann og var líka aðeins óheppinn. En þessar tvær holur fóru alveg með þetta hjá mér,“ sagði Birgir Leifur.
Í kjölfarið kom skolli, þrjú pör, skolli, par, skolli og loks par. Samtals urðu höggin því 77 talsins en á laugardaginn lék hann á 66 höggum.
Hann sagðist verða að setjast niður og fara yfir hvað hefði farið úrskeiðis en fyrir síðasta daginn var hann á átta höggum undir pari og í fínum málum. „Maður verður að reyna að fara yfir það jákvæða úr þessu móti og byggja ofan á það. Ég hef verið að taka stutta spilið í gegn og það var fínt í þessu móti. Nú þarf ég að fara yfir mótið í heild og læra af þessu. Ég hef verið að berjast við slæmt högg sem fer alltaf til vinstri og þarf að ná því úr mér. Ég veit hvað þarf að laga og ætla að gera það.
Ég er með of marga skolla í þessu móti og sprengjur á síðasta hring. En ég er hins vegar með nægilega marga fugla til að vera í toppbaráttunni, en skollarnir eru of margir,“ sagði Birgir Leifur sem er á biðlista vegna móts í Kína og á alveg eins von á að þessi mánuður verði rólegur hjá sér.
Á mótinu í Portúgal fékk Birgir Leifur 19 fugla, 12 skolla, 39 pör og tvær holur þar sem hann tapaði í raun fimm höggum.