Sunna: Margar holur krefjandi

Íslandsmótið í golfi hefst í fyrramálið á Leirdalsvelli, haldið af Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, GKG. Sunna Víðisdóttir á titil að verja í kvennaflokki. Hún segist ekki finna fyrir neinni pressu.

„Það er náttúrlega engin pressa nema maður setji hana á sig sjálfur. Auðvitað kem ég í þetta mót til að verja titilinn, en það verður bara að koma í ljós hvernig það fer,“ sagði Sunna í viðtali við mbl.is við Leirdalsvöll í dag.

„Það eru mjög margar krefjandi holur hérna og flatirnar eru litlar, þannig það skiptir mjög miklu máli að hitta á þau. En ég myndi segja að 9. og 10. hola séu allavega erfiðar, þannig að þær eiga eftir að skipta máli,“ sagði Sunna meðal annars í dag.

Viðtalið við Sunnu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Fyrstu kylfingar verða ræstir út klukkan 7.30 á Leirdalsvelli í fyrramálið. Íslandsmótið í golfi stendur yfir til sunnudags og þá verða Íslandsmeistarar karla og kvenna í golfi krýndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert