Horschel: Á ekki skilið að keppa í Ryder-bikarnum

Billy Horschel hefur leikið magnað golf undanfarnar vikur.
Billy Horschel hefur leikið magnað golf undanfarnar vikur. AFP

Bandaríkjamaðurinn Billy Horschel hefur leikið stórbrotið golf síðustu vikur sem skilaði honum sigri í tveimur síðustu mótum PGA-mótaraðarinnar, og þar með sigri í FedEx-bikarnum, og vinningsfé upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.

Horschel er þó ekki í Ryder-bikar liði Bandaríkjanna sem mætir Evrópu dagana 26.-28. september. Þetta hefur vakið spurningar um það hvort of snemma sé valið í liðin, en það var gert áður en Horschel vann mótin tvö. Horschel vill þó sjálfur meina að hann eigi ekki skilið að keppa í Ryder-bikarnum núna.

„Tímabilið mitt var ekki nógu gott. Strákarnir í liðinu hafa unnið að því að fá sæti þar í tvö ár. Ef ég fengi sæti bara fyrir það að spila vel í 2-3 vikur þá fyndist mér það gera lítið úr árangri þeirra á síðustu tveimur árum,“ sagði Horschel.

„Jafnvel í dag þá finnst mér ég ekki þess verður að tilheyra Ryder-bikarliðinu. Maður kemst ekki í liðið á þremur vikum. Þetta þýðir bara að mér gengur mjög vel í augnablikinu, annað ekki,“ sagði Horschel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert