Mickelson gagnrýndi Watson

Phil Mickelson á Gleneagles-vellinum um helgina.
Phil Mickelson á Gleneagles-vellinum um helgina. AFP

Kylfingurinn kunni Phil Mickelson gagnrýndi Tom Watson, fyrirliða Ryder-liðs Bandaríkjanna harðlega í gærkvöld, eftir að liðið tapaði fyrir Evrópu í Ryder-bikarnum á Gleneagles-vellinum í Skotlandi.

Mickelson sagði við fréttamenn eftir viðureignina að fyrirliðinn hefði ekki ráðgast við leikmennina og hefði betur haldið sig við það fyrirkomulag sem gekk vel upp árið 2008 þegar Bandaríkin unnu keppnina undir stjórn Pauls Azingers.

„Paul Azinger náði að virkja alla, það komu allir að því að finna út með hverjum þeir myndu spila, og tóku þátt í öllum ákvörðunum. Paul var með frábært leikplan fyrir okkur. Við notum sama fyrirkomulag í Forsetabikarnum og það gengur virkilega vel. Því miður hefur þessu ekki verið beitt í þremur síðustu Ryder-mótum, og við þurfum að huga að því að taka það aftur upp því þannig gekk okkur best," sagði Mickelson.

Watson vísaði þessu á bug. „Hann hefur sínar skoðanir og það er í lagi. Ég geri þetta öðruvísi. Ég talaði við leikmennina en varafyrirliðarnir höfðu mikið að segja um hverjir ættu að spila saman," sagði Watson og gaf lítið fyrir gagnrýni Mickelsons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert