Watson axlar ábyrgð

Tom Watson ásamt Phil Mickelson sem gagnrýndi fyrirliðann harðlega.
Tom Watson ásamt Phil Mickelson sem gagnrýndi fyrirliðann harðlega. AFP

Tom Watson, fyrirliði Ryder-liðs Bandaríkjanna, segist bera alla ábyrgð á öllum þeim mistökum sem leiddu til ósigurs liðsins gegn Evrópuúrvalinu í Ryder-bikarnum um síðustu helgi.

Margir liðsmenn Bandaríkjanna hafa gagnrýnt Watson harðlega, meðal annars Phil Mickelson, sem var ómyrkur í máli skömmu eftir ósigurinn þar sem Evrópa hafði betur með 16 og hálfum vinning gegn 11 og hálfum.

Watson hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem hann axlar fulla ábyrgð á gengi liðsins. „Ég sé eftir þeim ummælum sem leiddu til þess að leikmönnunum fannst ég ekki taka mark á uppástungum þeirra,“ sagði Watson sem var einna helst gagnrýndur fyrir að ráðfæra sig ekki við leikmennina sjálfa í sínum ákvörðunum.

Ósigurinn um síðustu helgi var áttunda tap Bandaríkjanna í síðustu tíu Ryder-keppnum gegn Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert