Keilir í 3. - 4. sæti í Búlgaríu

Axel Bóasson lék undir pari.
Axel Bóasson lék undir pari. mbl.is/Styrmir Kári

Karlasveit Keilis er í 3. - 4. sæti eftir fyrsta keppnisdag á Evrópumóti golfklúbba sem fram fer í Búlgaríu.

Sveitina skipa þeir Axel Bóasson, Gísli Sveinbergsson og Henning Darri Þórðarson og telja tvö bestu skor þeirra á hverjum keppnisdegi.

Axel lék fyrsta hringinn á höggi undir pari, Gísli var á parinu en Henning á 78 höggum og taldi því skor hans ekki.

Netmiðillinn Kylfingur.is greinir frá þessu og þar kemur fram að keppnishaldið hafi farið talsvert úr skorðum og hefur ein umferðin verið felld niður en fyrirhugað var að leika þrjá hringi eða 54 holur.

Til tíðinda dregur því á mótinu í dag og er Keilir fimm höggum á eftir efstu sveitunum sem koma frá Ítalíu og Portúgal.

Keilir vann sér þátttökurétt með sigri í efstu deild í íslensku sveitakeppninni, þ.e.a.s deildakeppni GSÍ. Þar mega atvinnumenn taka þátt en á EM golfklúbba er eingöngu áhugamönnum heimiluð þátttaka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert