Góður árangur á EM

Axel Bóasson.
Axel Bóasson. mbl.is/Styrmir Kári

Karlasveit Keilis stóð sig virkilega vel á Evrópumóti golfklúbba sem lauk í Búlgaríu á laugardaginn. Keilir hafnaði í 3. – 4. sæti sem líklegt er að sé á meðal þess besta sem íslenskir klúbbar hafa náð í þessari keppni. Sveitina skipuðu þeir Axel Bóasson, Gísli Sveinbergsson og Henning Darri Þórðarson.

Mótshaldið fór verulega úr skorðum vegna veðurs og þegar upp var staðið réðust úrslitin eftir aðeins 18 holur, en ekki 54 holur eins og lagt var upp með. Axel lék á höggi undir pari, Gísli á parinu og Henning á sex yfir pari en tveir bestu hringirnir teljast hjá hverri sveit. Landsmeistarar frá Ítalíu og Portúgal urðu í efsta sæti, fimm höggum á undan Hafnfirðingunum.

Keilir varð fyrir barðinu á ákvörðun mótshaldara sem aflýstu fyrsta hringnum þó allar sveitirnar væru komnar út á völl. Þá var Gísli á þremur undir pari og Axel á höggi undir pari í mikilli rigningu og Keilir í efsta sæti. Í stað þess að fresta hringnum, merkja og hefja leik á sama stað daginn eftir, eins og venja er á stórmótum, þá var hringnum aflýst. „Leikur var stöðvaður vegna mikillar rigningar fremur snemma dags. Ekki var beðið lengi eftir því að veðrinu slotaði heldur tekin ákvörðun hálftíma síðar um að stroka út hringinn. Yfirleitt er það allra síðasti valkostur og við vorum hissa á þessu. Það hefði verið gaman að geta tekið upp þráðinn og náð alla vega 36 holum. Þetta var því ansi súrt,“ sagði Axel þegar Morgunblaðið bar þetta undir hann í gærkvöldi enda ákvörðun mótshaldara Keili mjög í óhag.

Leikið var daginn eftir en lokadeginum aflýst vegna snjókomu. Veðurfarið hafði hins vegar verið afar gott þegar sveitirnar léku æfingahringina og völlurinn góður að sögn Axels. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert