Sameining samþykkt hjá Bakkakoti og Kili

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Félagsmenn í Golfklúbbunum tveimur í Mosfellsbæ, Bakkakoti og Kili, hafa samþykkt tillögu um sameiningu klúbbanna. Nýi klúbburinn mun heita Golfklúbbur Mosfellsbæjar.

Atkvæðagreiðsla fór fram í gærkvöldi og hlaut sameiningin afgerandi brautargengi hjá báðum klúbbum. Sameiningin var samþykkt með 80% atkvæða hjá Bakkakoti og 91% hjá Kili.

Félagsmenn í nýja klúbbnum eru þá 1.156 talsins sem stendur. Vellirnir, Bakkakotsvöllur og Hlíðarvöllur, verða báðir í notkun eins og áður. Nýtt vallarhús mun rísa á Hlíðarvelli og verður staðsett nær miðju vallarins en núverandi klúbbhús. Þá stendur til að breyta vellinum í Bakkakoti, meðal annars með það fyrir augum að lengja hann. Félagsgjald í hinum nýja klúbbi verður 89.990 krónur árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert