Miklir áverkar á Allenby

Skemmtistaðurinn The Amuse wine bar er til húsa í þessari …
Skemmtistaðurinn The Amuse wine bar er til húsa í þessari byggingu. AFP

Einn kunnasti kylfingur Ástralíu, Robert Allenby, varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu þegar hann heimsótti Honolulu á Hawaí þar sem Sony-mótið fór fram á PGA-mótaröðinni í golfi. Allenby var rænt og var hann numinn brott af skemmtistað sem hann sótti eftir að hafa misst af niðurskurði keppenda í mótinu. 

Að loknum tveimur hringjum á föstudaginn var keppendafjöldi skorinn niður venju samkvæmt. Allenby lék á 71 höggi fyrstu tvo hringina og dugði það ekki til. 

Um kvöldið fór hann á skemmtistað en var numinn brott af mönnum sem hann kannaðist ekkert við. Tilgangurinn virðist hafa verið að ræna kylfinginn því af honum voru tekinn öll verðmæti og hann beittur ofbeldi. Var hann skilinn eftir á víðavangi, í töluverðri fjarlægð frá skemmtistaðnum.

Allenby er einn af sigursælustu kylfingum Ástrala og hefur lengi gert það gott á sterkustu mótaröðunum. Hefur hann fjórum sinnum fagnað sigri á PGA en einnig hefur hann fjórum sinnum unnið á Evrópumótaröðinni. Þá hefur hann verið á meðal tíu efstu á þremur af risamótunum fjórum. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá áverka Allenbys þar sem hann er í viðtali við sjónvarpsstöðina Golf Channel. 

Robert Allenby á Sony-mótinu.
Robert Allenby á Sony-mótinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert