Sautján ára í toppsæti heimslistans

Lydia Ko er yngsti kylfingur sögunnar í efsta sæti heimslistans.
Lydia Ko er yngsti kylfingur sögunnar í efsta sæti heimslistans. AFP

Kylfingurinn Lydia Ko frá Nýja-Sjálandi braut blað í sögunni með því að verða yngsti kylfingur golfsögunnar til að setjast í efsta sæti heimslistans, en hún er einungis sautján ára, fædd árið 1997.

Ko fór upp í efsta sæti listans með því að enda í öðru sæti á LPGA Coates-meistaramótinu í Flórída um helgina. Hún sló þar með met Tigers Woods sem var 21 árs þegar hann komst í efsta sæti heimslistans í karlaflokki árið 1997.

Í kvennaflokki átti Jiay Shin metið þegar hún komst í efsta sætið árið 2010, þá 22 ára, og því er Ko að setja nýtt met í golfsögunni. Hún fór upp fyrir Inbee Park á heimslistanum. Ko gerðist atvinnumaður árið 2013 og hefur unnið fimm mót á LPGA-mótaröðunni og varð meðal annars yngsti keppandinn sem það gerir þegar hún vann sitt fyrsta mót 15 ára gömul.

„Það er mikill heiður að vera í efsta sætinu. Ég reyni bara að spila eins vel og ég get og einbeita mér að golfinu,“ sagði Ko.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert