Lægsta staða Tigers í 19 ár

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods heldur áfram að hrapa niður alþjóðlega styrkleikalistann í golfi en hann er nú kominn í 70. sætið og hefur Woods ekki verið jafn neðarlega á listanum í tæp 19 ár.

Á haustmánuðum ársins 1996 var Tiger í 76. sæti en þá hafði kylfingurinn verið atvinnumaður í tvo mánuði í íþróttinni.

Nú hefur kylfingurinn hins vegar verið í frjálsu falli frá því að hann var í efsta sæti listans, í maí árið 2014 en það var í 11. skiptið sem hann vermdi toppsætið.

Frá þeim tíma hefur ekkert gengið hjá Tiger. Hann hefur tekið þátt í sex mótum á PGA-mótaröðinni og í þeim hefur hann misst þrisvar af niðurskurði en tvisvar þurfti hann að draga sig úr keppni vegna bakmeiðsla og illskýranlegra sveiflubreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert