Sögusagnir um lyfjabann Tigers þvæla

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Þær sögusagnir að Tiger Woods væri kominn í mánaðarbann vegna lyfjamisnotkunar á PGA-mótaröðinni reyndust ekki á rökum reistar og hafa bæði talsmenn PGA sem og umboðsmaður Tigers gefið það út opinberlega.

Woods er aðeins að taka hlé frá spilamennsku eftir slaka frammistöðu á golfvellinum undanfarið, meðal annars vegna bakmeiðsla.

Fyrrverandi leikmaður mótaraðarinnar, Dan Olsen, sem lék á 35 mótum á árunum 1989-2010, sagði í viðtali á bandarískri útvarpsstöð síðastliðinn föstudag að Woods væri að taka út bann en dró ummæli sín til baka seint í gær og bað Tiger um leið afsökunar.

„Ég dreg allt viðtalið til baka. Ummæli mín voru óhyggileg,“ sagði Olsen í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert